Fyrsta djammið í London
Jæja... þá er ég búin að fara á fyrsta alvöru djammið í London! Sú slóvenska kom til mín um hálf 9 í gærkvöldi með heila flösku af Martini Bianco og eina stóra og eina litla flösku af einhverjum bláum vodka gosdrykk. Stóra flaskan af bláa drykknum var fljót að fara en ég skipti svo yfir í Breezer - leist ekkert á að fara að drekka Bianco enda aldrei fundist það gott á bragðið. Fröken Slóvenía var hins vegar ekkert að tvínóna við hlutina, drakk það óblandað og án klaka. Fyllti á litla vatnsflösku sem hún stakk í veskið sitt og restina drakk hún áður en við lögðum af stað! Henni fannst ég óttaleg kerling að sötra Breezer en ég kom henni í skilning um það að ég drykki það sem ég vildi og á mínum hraða. Hún virtist hafa miklar áhyggjur af því að hún yrði ekki nógu drukkin þannig að Bianco-ið rann oní hana á undraverðum hraða!
Við tókum lestina niðrí bæ upp úr 11, röltum aðeins um á Picadilly og Leicester Square eins og hinir túristarnir, ætluðum að kíkja á Zoo Bar en þar var svo löng röð að við nenntum ekki að bíða en enduðum þess í stað inn á klúbb sem heitir að mig minnir On Anon og er í Trocadero byggingunni. Klúbbur á mörgum hæðum, algjör völundarhús en það var samt alveg ágætlega gaman. Og djammfélagi minn var ekkert að tvínóna við hlutina, kyssti annan hvern mann sem yrti á hana og þá er ég ekki að tala um neina mömmukossa. Ég var eins og fermingarstelpa við hliðina á henni... hmmm... kannski ekki alveg nógu góð samlíking á þessum síðustu og verstu tímum en ég miða þetta við hvernig fermingarstelpur voru þegar ég fermdist :-) En stúlkukindin var nú samt ekki á því að samþykkja þessa náunga sem hún var að kyssa... nei... þeir voru allir með of stutta fingur! Hún trúði einarðlega á samræmi milli fingralengdar og lengdar annarra og skemmtilegri líkamshluta þannig að hver sjarmörinn á fætur öðrum mátti drattast í burtu með skottið milli lappana! Og þegar svo upp var staðið þá var það nú reyndar fermingarstelpan sem lenti á sjéns ;-) Voða sætur írsk-amerískur Lundúnabúi.... tölum ekki meira um það en jú, hann var með fallegar hendur og langa fingur ;-)
Dagurinn í dag hefur svo að sjálfsögðu verið í samræmi við fjölda Breezera og svefnstunda, eins og við var að búast!