mánudagur, júní 26, 2006

Ég fer í fríið :)

Loksins er komið að því, langþráðu sumarfríinu. Svo að allar dagsetningar séu á hreinu þá er best að byrja á þeim:
  • fim 29. júní - flug frá London til New York með 2 tíma millilendingu í Keflavík :)
  • þri 4 júlí - flug frá New York til Grand Bahamas þar sem planið er m.a. að liggja á sundlaugarbakkanum með góða bók og kokteila í öllum regnbogans litum. Er að vonast til að fá smá höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð hjá ferðafélögunum sem eru að fara á framhaldsnámskeið í þeirri merku grein.
  • mið. 12 júlí - til baka til New York þar sem verður tekið nett 'shop-'til-you-drop' dæmi í einn dag.
  • fös. 14. júlí - frá New York til Íslands þar sem ég stoppa til 30. júlí. Fyrri vikan verður í fríi og að mestu eytt utan höfuðborgarinnar. Seinni vikan verður í bænum og í vinnu. Þannig verður það.

Það er nú orðið ansi langt síðan ég hef bloggað, er orðin óttalega löt við þetta. Síðan síðast hefur veðrið verið mun skárra, sumarið kom loksins og náði sér vel á strik, meira að segja með nettri hitabylgju í nokkra daga. Afrekaði að skreppa til Brighton sem er yndisleg borg og ég á örugglega eftir að kíkja þangað aftur á góðum sumardegi síðar í sumar. Kíkti líka á 17. júní hátíðahöld Íslendingafélagsins - þar var stundað pylsuát af miklu kappi, SS að sjálfsögðu. Annars hef ég svo sem ekki verið neitt á útopnu. Fann mér tannlækni sem hefur þegar náð að hirða af mér slatta af aurum en í staðinn hef ég fengið krónu á eina tönn og nýjar fyllingar í stað gamalla í þrjár tennur. Þetta þýddi m.a. 2 tíma í stólnum á föstudaginn var og ég er ekki enn búin að jafna mig í kjálkunum. Það sýnir kannski hvað maður talar lítið, hvað kjálkarnir eru í lélegri þjálfun. En þetta maraþongap gerði það að verkum að ég var alveg ónýt á föstudagskvöldið og lá bara í sófanum og bruddi verkjalyf.

Næstu dagar fara sem sagt í að hreinsa borðið í vinnunni, koma afleysingunni inní það helsta, þvo og strauja larfana sem fara í ferðatöskuna, fara í ræktina... já annasamir dagar framundan. Hver veit nema ég skelli mér líka á eins og eitt stefnumót, aldrei að vita ;)

laugardagur, júní 03, 2006

Skattadagurinn í UK

Heyrði í útvarpinu áðan að í dag er dagurinn sem tekjurnar eru okkar og fara ekki í skattinn. Það er að segja, það tekur 5 mánuði og 2 daga að vinna fyrir skattinum hér í Bretlandi. Man ekki hvaða dagur þetta var á Íslandi en einhvern veginn minnir mig að það hafi tekið töluvert lengri tíma að vinna fyrir skattmann á Íslandi!

föstudagur, júní 02, 2006

Sumarið er að koma

Loksins loksins loksins... sumarið að koma eftir blautasta maí mánuð síðan 1979 og þann fimmta blautasta frá upphafi mælinga. En það er samt ekki nóg til að garðslöngubanninu verði aflétt! Heilsan mín er bara að verða nokkuð góð líka. Undanfarið hefur eiginlega öll orka farið í að láta mér batna og það hefur bara gengið þokkalega. En það er ekki þar með sagt að ég hafi bara setið auðum höndum, ó nei. Síðasti mánuður verið þvílíkt annasamur. Svo þessi færsla verði nú ekki alveg óralöng þá stikla ég á stóru:

  • Helgarferð með GAA til Berlínar. Þar hélt ég vöku fyrir okkur báðum í þrjár nætur, hóstandi eins og útkeyrður trabant, með þeim afleiðingum að við vorum farnar að hvæsa hvor á aðra á mánudagsmorgninum. En við náðum að hreinsa andrúmsloftið á flugvellinum meðan við biðum eftir að komast út í vél. Og ætlum meira að segja að láta á það reyna aftur núna um helgina að sofa í sama herbergi :) Erum að fara til Brighton á eftir í afmæli til Kidda Pé, fyrrum vinnufélaga.
  • Nokkrar heimsóknir til læknis, tveir pensilínkúrar, tvö mismunandi astmapúst og lungnamyndataka (sem tekur tvær vikur að senda milli staða sem er álíka langt á milli og frá Hafnafirði til Reykjavíkur). Á tíma hjá doksa á þriðjudaginn í næstu viku og fæ þá að vita hvað er á myndinni.
  • Hef ekki reykt síðan laugardagskvöldið 22. apríl og hef í hyggju að halda því áfram
  • Byrjaði aftur í ræktinni í fyrradag og get varla gengið fyrir harðsperrum í dag. Fannst nett fúlt að þurfa að fara fram í búningsklefa eftir fyrstu 20 mín og fá mér púst en það var ekki hjá því komist :( En ljósi punkturinn er að það eru farin nokkur kíló og fitu% farin niður um 3% - mér finnst það ekki leiðinlegt en gæti trúað að hluti af góðum árangri væri lítil sem engin áfengisneysla :)
  • Fékk fjölskylduna úr Bogahlíðinni í heimsókn og það var bara dásamlegt - þau eru reyndar um það bil að verða Seyðisfjarðarfjölskyldan og þ.a.l. vantar mig leigjanda sem fyrst. Þvældumst um, borðuðum úti - sem er pínu erfitt með 7 ára gutta sem borðar helst ekkert nema serios en málið leystist farsællega síðasta kvöldið á líbönskum stað, af öllum stöðum, fórum í London Dungeons sem er eiginlega ekki fyrir 7 ára - sumir voru svakalega hræddir, þau fóru í söfn og á sýningar og ýmislegt fleira. Stúlkan að sjálfsögðu fallegast barn sem fæðst hefur, við erum öll sammála um það og stóri bróðirinn óskaplega stoltur.
  • Næsta heimsókn var Aníta vinkona og mamma hennar. Höfðum það mjög svo dægilegt en veðrið hefði mátt vera betra, það rigndi hreinlega eldi og brennisteini. Og óheppni þeirra endaði ekki þar því Stansted Express bilaði á leiðinni út á flugvöll, þær ásamt fleiri hundruð öðrum farþegum, máttu gjöra svo vel að standa úti í rigningu og roki í einn og hálfan tíma að bíða eftir rútu. Og þá tók við klukkutíma keyrsla. Og afleiðingin. Þær misstu af vélinni og héngu út á flugvelli alla nóttina því það var vita vonlaust að fá leigubíl. En þær komust til Íslands heilu og höldnu daginn eftir, kvefaðar og þreyttar en í heilu lagi.
  • Stakk gestina mína af því ég þurfti að fara í vinnuferð til Helsinki - rok og riging, bara eins og ekta íslenskt slagviðri. Sá því miður lítið af borginni því ég var meira og minna lokuð inná skrifstofu. Náði því ekkert að kíkja í fínu búðirnar þeirra eins og Marimekko og Iittala :( Er ákveðin í að koma þangað einhvern tímann aftur enda á ég heimboð í finnskt sumarhús rétt fyrir utan borgina.
  • Síðasta helgi - algjört afslappeldi, engin plön en gerði nú samt ýmislegt. Synti, gekk, borðaði úti, fór í bíó, fór á listasýningu, las, horfði á sjónvarpið, horfði á DVD - sem sagt dásamleg helgi. Da Vinci Code er allt í lagi, ekkert meira en það en Crash er mynd sem ALLIR ættu að sjá og það oftar en einu sinni.

Og á eftir er ég svo að fara til Brighton eins og þegar hefur komið fram. Veðrið er dásamlegt þannig að í staðinn fyrir að fara í ræktina áður en ég tek lestina, ætla ég í góðan göngutúr.

Framundan er svo náttúrulega HM í fótbolta. Ekki að ég sé að deyja úr spenningi en ætla nú samt að velja mér lið til að halda með ef Hollendingar detta út. Og það lið verður valið algjörlega á fagurfræðilegum forsendum þannig að ég þarf að finna vefsíðu með góðum myndum af liðunum. Eða kaupa eitthvert rit um keppnina sem inniheldur nærmyndir af köppunum og helst myndir af innanlærisvöðvunum líka. Enskir væru nú að klikka illilega ef þeir gefa ekki svona bæklinga út en þó er kannski líklegra að þeir fjalli meira um knattspyrnuna sjálfa sem er náttúrulega argasti óþarfi.

En... nú ætla ég að skella mér í göngutúr, á hlýrabol og sandölum :)